Egill Bjarnason

Journalist

info@egillbjarnason.com Built with Indexhibit

Stjörnufræði
Tímarit Máls og menningar, 1. hefti 2016.

Word > Edit > Insert symbol > White Star

Hvernig varð bókagagnrýni að föndugerð í ritvinnsluforriti? Skáldsaga, fimmtíuog tvö þúsund orð, dregin saman í þrjú atkvæði. Fimm stjörnur. Tvær stjörnur. Hauskúpa. Þessi skraut — eða skemmdarverk — eru leiðarstjörnur fyrir viðtökur og vegferð höfunda, einkum ungra.

Án þess að nokkur viti hvað mælistikan þýðir.

Hér á eftir verður fjallað um stjörnugjafir íslenskra bókagagnrýnanda í fimm þáttum. Fyrstur er Gunnars þáttur Egilssonar.

Meira

---

Reisubókarbrot
Hluti af ritröð um Vestur-Afríku. Fréttatíminn, 2011.

Hér er staðreynd um vesturhorn Afríku: Malbik þýðir Internet. Altso, þar sem er greiðfær vegur, þar er kaupstaður með tölvu og netkapli þó stundum leiði hann alla leið inní bakherbergi á fjarskipta- miðstöð í eigu hins opinbera. Ég hef ekki séð malbik í heila viku. Menn gætu stigið á Mars og ríkisstjórnin ákveðið að Reykjavík skyldi lögð í eyði. Ég myndi heyra af því um svipað leyti og slökkt yrði á Friðarsúlunni.

Jú, hér í regnskógum Gíneu-Bissá eru sagðar fréttir, eins og gengur í mannlegu samfélagi. Útvarp er eini formlegi miðillinn. En þulurinn talar portúgölsku eða eitthvað þaðan af óskiljanlegra. Jafnvel þó einstaka maður sé talandi á ensku myndi enginn svífa á mig til að flytja fréttir úr hvítra-manna-landi. Ekki frekar en ég færi að ræða ástandið við Gíneuflóa við túrista á Íslandi.

Fyrir ári sat ég inná kontor hjá embættismanni súdanska lýðveldisins. Ég var nýstiginn af bát frá Egyptalandi og kynni mín af súdönsku skrifræði rétt að byrja. Þessi hafði það eina hlutverk að skrifa nafnið sitt með bláum penna (einungis forsetinn notar svartan). Þess vegna kom ekki á óvart að öll húsgöngin á skrifstofunni skyldu snúa í átt að litlu sjónvarpstæki, stilltu á arabíska fréttastöð þá stundina. Á skjánum slóst fólk um hrísgrjónasekki sem rigndi úr herþyrlu. „Haíti. Vandamál. Enginn matur,“ svaraði Skriffinnur þegar ég benti á tækið. Síðan liðu fjórir dagar þar til ég heyrði að Haíti glímdi við meira en matvælaskort.

Vegna þess að Vestur-Afríka er vanþróuðust allra heimshluta og vegna þess að á reiðhjóli forðast ég fjölfarna -- malbikaða -- staði, keypti ég farsíma, með afrísku símanúmeri, og bað pabba að hringja ef yrðu stórtíðindi; þriðja heimsstyrjöldin og þar frameftir götum.

Í þau fáu skipti sem síminn hringir bý ég mig undir það versta. (Ef mamma heilsar á hinum endanum geri ég ráð fyrir að pabbi sé farinn í þriðju heimsstyrjöldina.)

---

Brú
„Já, ég veit. Hún er stórglæsileg. Byggð af Kínverjum. Algjör munur að þurfa ekki lengur að nota ferju.“
Ég var reyndar að tala um sólsetrið yfir Níger-ánni. Fannst eitthvað svo sjálfsagt að hafa brú.

---

Erindisleysi
Til borgarinnar Kono í Sierra Leone fer engin erindislaus. Hvítur maður er annað hvort hjálparstarfsmaður eða demantafjárfestir. Að ég skyldi tilheyra hvorugum hópnum gerði mig að hugsanlegum njósnara, samkvæmt lögregluþjóni á vegatálma við bæjarmörkin. Eftir ítarlega yfirherslu um fjölskylduhagi, fjárhagsstöðu og skoðanir á enskum knattspyrnumönnum hleypti hann mér í gegn. Sagðist samt enn gruna mig um lygar og brot á alþjóðalögum.

Ein malbikuð gata. Ekkert rafmagn. Opið skólp. Velkomin til höfuðstaðs demantaviðskipta í Vestur-Afríku! Skrautleg hús demantakaupmanna voru eina bæjarprýðin. Aðrir kaupmenn höfðu vit á að hafa verslanir sínar sem sjoppulegastar. Annað kallaði á innbrot. 

Þrátt fyrir að flytja út demanta fyrir hundruð milljarða króna ár hvert, hefur auðurinn reynst flestum bæjarbúum bölvun frekar en blessun. Í borgarastríði landsins, sem lauk árið 2002, urðu fimm valdabyltingar í borginni og helmingur íbúa hraktist á flótta. Auðlindin hélt vítahringnum gangandi, eins og svo oft í Afríku.

Demantakaupmenn í bænum eru nær allir líbanskir að uppruna. Líkt og Indverjar í Austur-Afríku hafa Líbanir myndað viðskiptanet víða á vesturhorninu. Fyrir vikið eru þeir yfirleitt fyrstir til sæta ofsóknum lýðskrumara. Í nágrannaríkinu Líberíu er þeim meinaður ríkisborgararéttur á grundvelli kynþáttar sem er einsdæmi í heiminum nú á dögum. 

Jawel Dimonds stóð utaná áberandi, demantblárri byggingu. Ég rak inn nefið. Þóttist þurfa skipta dollurum í Leeur. „Fjárfestu frekar í demantauppgreftri,“ sagði einn af Jawel-unum. Áður en ég vissi af sat ég loftkældu bakherbergi - með íspinna. „Fimmtán hundruð dollarar er ágætis byrjun. Dugar fyrir vatnsdælu með bensínmótor. Eldsneyti er dýrasti bitinn, sjáðu.

Vinnuaflið þarf ekkert nema skóflur og hrísgrjónasekk.“ Ég sagðist ætla hugsa málið. Kunni ekki við annað eftir að hafa þegið allar veitingarnar sem hann bar í mig. Núna vissi ég hvert ætti að leita til að fá íspinna í þessum bæ.

Ekki leið að löngu þar til annar hvor Líbani leit á mig sem áhugasaman fjárfesti og ég var hamingjusamlega pakksaddur af súkkulaðiís. Mál til komið að yfirgefa Kono.

„Ég myndi bíða framá hádegi,“ sagði hótelstjórinn alvarlegur meðan ég teymdi hjólið útúr herberginu. „Þriðji laugardagur hvers mánaðar er hreingerningadagur Sierra Leone. Önnur vinna er bönnuð.“

Sniðugt, hugsaði ég, minnugur þess að hafa tekið þátt í svipuðu átaki hjá ömmu og afa í Biskupstungum. Gott ef sveitin skipaði ekki árlegan ruslamálaráðherra. 

Út á aðalvegi frá hótelinu sá ég að Kono-menn gengu skrefinu lengra en Tungnamenn. Borð, bíldekk og annað tiltækt myndaði vegatálma við hver gatnamót. Vopnaðir lögreglumenn gættu þess að engir ökumenn væru á ferli. Uppúr miðbænum steig svartur reykur (frá brennandi rusli). Flestir gengu um með sveðju (til þess að slá grasið). „Af hverju er þessi maður ekki að taka til?!“

Að fá leyfi lögreglu til að yfirgefa bæinn reyndist enn snúnara en sjálf inngangan. 

---

Af öpum og furðufugli
Á Látrabjargi í fyrrasumar lærði ég að til væru tvær tegundir fuglaskoðunarmanna. Merkjarar og ekki-merkjarar. Merkjarar eru í markvissum lífstíðarleiðangri í leit að sem flestum tegundum úr Stóra fuglavísinum. Hinir þykjast njóta fuglalífsins án nördískrar söfnunaráráttu.

Þegar ég steig á Tiwai-eyjuna í Sierra Leone, skammt frá landamærum Líberíu, mætti ég sjaldséðri tegund á þessum slóðum; svokölluðum ferðamanni.

Þessi hvíti hrafn, klæddur síðerma safarí-galla, heilsaði án þess að taka augun af himninum. Mark, frá Þýskalandi. Meira fékk ég ekki að vita en gat gefið mér að hann væri áhugasamur um fuglalíf. Ég var spenntari fyrir spendýrum eyjunnar, þrettán apategundum og síðustu pygmý-flóðhestum jarðar.

Við sólarupprás næsta dag héldum við Mark inn í frumskóg eyjunnar í fylgd leiðsögumannsins Nakjuu í von um að sjá einhver dýr í morgunæfingum.

Skógurinn var svo þykkur að við sáum fátt handan gönguslóðans. Í hvert sinn sem einhver trjágrein hreyfðist í fjarska benti Nakjuu spenntur. „Api! Þarna! Sjáðu!“ Ég pírði augun og gott ef ég sá ekki eitthvað kvikt sjótast milli greina.

Aftur á móti heyrðum við í öllu mögulegu. Við hvert hljóð spurði Mark ákafur hvort þetta væri þessi eða þessi fuglategund. Leiðsögumaðurinn kinkaði alltaf kolli og svaraði eftir atvikum „frumskógar-dýr“ eða „frumskógar-fugl“. Mark þreyttist samt ekki á að spyrja.

Stundum hugsaði leiðsögumaðurinn sig lengi um áður en gaf sama stutta svarið. Þegar hann sagði að tiltekið hljóð kæmi annaðhvort frá „frumskógar-dýri“ eða „frumskógar-fugli“ var Þjóðverjanum öllum lokið og reytti hár sitt það sem eftir lifði göngutúrsins. Mig var farið að gruna að hann væri Merkjari.

Ég kunni ágætlega við að Nakjuu reyndi ekki að vera David Attenborough. Hann vissi á móti heilmikið um skógarnytjar. Til dæmis benti hann okkur á allar plöntur sem hægt var að reykja. Ég reyndi að sýna því sérsviði hans áhuga og spurði hvort hægt væri að reykja skærrauðu blómin sem uxu um allt. „Já,“ svaraði hann hikandi en muldraði, hálf raunarmæddur. „En maður verður veikur af því.“

Og hvers konar tré tengdust mannáti til forna. „Núorðið þarf sérstakt leyfi til að höggva þau en gott ef ég sá ekki kokkinn okkar verða sér útum trjábút eftir að þið komið,“ sagði hann og kímdi. Ég hló en Mark var ekki skemmt. Mannát á víst ekki að hafa í flimtingum.

Einu dýrin sem ég komst í nálægð við á Tiwai-eyjunni voru helvítis skordýrin. Kannski ekki við öðru að búast í Vestur-Afríku. Þau fáu villidýr sem ekki hafa orðið manninum að bráð eru mun styggari en þau sem finnast á austurströnd álfunnar.

Í löndunum við Gíneuflóa eru apar algengustu villidýrin. Víða má sjá auglýsingaskilti frá dýraverndunarsamtökum: Að drepa apa er ólöglegt! Heimamenn halda hins vegar áfram veiðum. Apar eru nefnilega eins og álftin; bændum til ama á ræktunarlandi og fínn sunnudagsmatur. Til þess að skilja lesendur ekki eftir með þá spurningu hvernig þessir forferður okkar smakkast get ég greint frá því að chlorocebus-api, djúpsteiktur útí vegkanti við þorpið Kurubonia, bragðast eins og kjúklingur.

---

Á leiðarenda
Átta mánuðir liðnir. 6195 kílómetrar að baki. Hjólandi. Var þetta allt þess virði ... Samkvæmt kortinu á þetta að heita vegur ... Til vinstri – báturinn er að velta! ... Hvítingi! Hvítingi! Hvítingi! ... Þú ert annað hvort með malaríu eða matareitrun ... Við drápum þennan snák fyrir utan tjaldið þitt í nótt ... Fyrir alla muni, ekki fara til Timbúktú ... Guðjohnsen! Guðjohnsen! Guðjohnsen! ... Meiri hrísgrjón? .... Vatnið lyktar skringilega, líklega er dauð rotta í leiðslunum ... Engar áhyggjur, ég lærði í Sovétríkjunum ... Jú, þessi stimpill er ókeypis en við erum í Afríku ... Ferðamaður? Í Sierra Leone? ... Varúð: Krókódílar ... Taktu mig með til Íslands ... Hvítingi! Hvítingi! Hvítingi! ... Fyrir fimm þúsund færðu þetta baðkar í kaupbæti ... Muna: Aldrei aftur tjalda undir mangótré í apríl ... Herra, þetta er ekki leiðin til Telemelé ... Áttu systur? ... Eyddu þessari ljósmynd! ... Þetta er annað hvort malaría eða matareitrun, aftur ... Bon voyage ...

--- --- ---

Forseti Íslands: Háskólamenn vari sig á fræðilegri freistni fjölmiðla
Birtist í Íslensku leiðinni, málgagni stjórnmálafræðinema við Háskóla Íslands.

„Alþjóðleg fjölmiðlun er orðin að einu þorpi. Ég gat setið inni í glerbúri úti í Kína, rætt við Bloomberg í beinni og klukkutíma síðar var það komið í íslenskum miðlum. Þannig hélt ég uppi virkri samræðu við íslensku þjóðina í tvö ár – í gegnum erlenda miðla – án þess að gera mér beinlínis grein fyrir því í upphafi,“ segir Ólafur Ragnar Grímsson við Íslensku leiðina í viðtali án milligöngu glerbúrs eða Blúmmbergs.

Saga stjórnmálafræðideildar Háskóla Íslands hefst: Í upphafi var Ólafur Ragnar Grímsson. Eftir að hafa verið fyrstur Íslendinga til að ljúka doktorsprófi í stjórnmálafræði var hann fenginn til að koma greininni á laggirnar innan háskólans. Fræðigrein sem átti þá eina kennslubók inni á Háskólabókasafni – og hún var úrelt. Áður en kennsla hófst, flaug Ólafur þangað sem hann hafði hlotið sína menntun og snéri heim frá Bretlandi með fullar ferðatöskur af nauðsynlegum bókum.

Í hönd fór áhugaverður tími. Lýsingarnar eru stjórnmálafræðinemunum sem hér skrifa mjög framandi og þegar minnst er í framhjáhlaupi á Ólaf Þ. Harðarson sem „minn gamla nemenda“ mætti ætla að viðmælandinn væri samtíðarmaður Jóns Sigurðssonar. En það er forsetinn ekki. Hann er fræddur árið 1943 á Ísafirði, líkt og ljósmyndavalið á veggjum bókastofunnar ber með sér. Er semsagt 69 ára og þessa dagana veltir þjóðin fyrir sér hvort hann ætti að vera á vinnumarkaðnum fjögur ár til viðbótar í hennar umboði.

Vangaveltum um framhaldið svarar hann af hefðbundinni mælskulist sem fræðimenn hafa frá ársbyrjun keppst við að túlka. Stjórnmálafræðingarnir. „Ég hef lúmskt gaman af þeirra dómum um gerðir forsetans yfirleitt,“ segir Ólafur. „Ef þeim yrði safnað saman, ummælum stjórnmálafræðinga á forsetaferli mínum og svokölluðum fræðilegum dómum um hvað ég mætti og ætti að gera, þá gæti það orðið skemmtileg lesning og kannski viðvörun. Forsetaembættið hefur ekki verið mikið rannsakað og þá nær eingöngu af Svani Kristjánssyni. Aftur á móti hafa aðrir stjórnmálafræðingar, sem ekki hafa talið embættið sitt sérsvið, komið fram með hinar og þessar fullyrðingar.“

Hann telur að fræðimenn séu á hættulegri braut við að elta tímahark fjölmiðlamanna með augnabliksdómum. „Ásókn fjölmiðlamanna í að fræðimenn gefi álit, oft á tíðum samdægurs og jafnvel á sama klukkutíma, getur leitt menn út í ákveðna fræðilega freistni. Tímapressa fjölmiðlanna leyfir viðkomandi fræðimanni ekki að glíma við þá analýsu sem þyrfti að liggja að baki fullyrðingum. Hætt er við að fræðin lendi fyrir vikið á einhvers konar einskismannslandi, þar sem menn eru ekki með skýr fræðileg mörk á vettvangi þjóðmálanna. Ef menn ganga of langt á þessari braut verður enginn munur á fræðimanninum, álitsgjafanum og spunameistaranum. Þegar ég var við háskólann, brýndi ég fyrir nemendum, að um leið og þeir stigju inn fyrir þröskuld kennslustofunnar, giltu önnur lögmál en úti á Suðurgötu. Inni þyrfti að færa fræðileg rök fyrir máli sínu. Það átti bæði við mig sem og nemendurna. Mér þótti því vænt um að lesa nýverið, í viðtali við Jóhannes Kristjánsson, sem hefur grætt mikla peninga á að herma eftir mér, að í fyrirlestrum hefði ekki verið nokkur vegur að greina stjórnmálaskoðanir mínar og ég hef reyndar aldrei hitt neinn fyrrverandi nemanda sem segist hafa gert það.“

Dr. Ólafur glímdi ekki við þessa umræddu fræðilegu freistni á sínum tíma. Fjölmiðlaumhverfið var einfaldlega svo gjörólíkt, með skýrum pólitískum línum. „Fjölmiðlarnir voru með þeim hætti, að í eyrum ykkar kynslóðar hljómar ástandið sjálfsagt einsog veröld í bók eftir Orwell,“ segir hann og telur nútíma flokkadrætti íslenskra miðla á engan hátt sambærilega. „Hins vegar hef ég vissar áhyggjur af þeirri tilhneigingu sem sést – of oft, að mínum dómi – hjá einstaka fjölmiðlamönnum og einstaka fjölmiðlum, að líta á sig sem einhverskonar þátttakendur í valdaspili í landinu.“ Við nefnum engin nöfn!

Fjarvera stjórnmálafræðinga óskiljanleg
Álit forsetans á tillögum stjórnlagaráðs við setningu Alþingis síðastliðið haust var túlkað á ýmsa vegu. „Stjórnmálafræðingur, sem situr í ráðinu, rauk til og sagði að þetta hefði allt saman verið vitleysa. Ráðherra sagði í stefnuræðu, að ég hefði talað einsog pólitíkus,“ segir Ólafur og kveðst hafa stillt sig um að halda þessari umræðu áfram. „Hið rétta er, að ég talaði fyrst og fremst sem gamall stjórnmálafræðiprófessor. Án þess að taka afstöðu með eða á móti, gaf ég einfaldlega klíníska samantekt á tillögunum, á gangvirki stjórnkerfisins, sem tillögurnar fela í sér. Vinnu stjórnlagaráðs var skipt milli þriggja hópa og tillögur þeirra síðan færðar saman. Eftir að hafa smíðað einstök hjól, hafði stjórnlagaráð ekki tíma til að athuga hvernig vélin virkaði. Það sem vantaði, var sjónarhorn stjórnmálafræðinnar og þeirra sem greina stjórnkerfið útfrá hinu pólitíska gangverki hinn lögfræðilegu fyrirmæla sem stjórnarskráin felur í sér. Af því að ég kenndi þessi fræði í áraraðir tel ég mig hafa alveg jafn sterkan fræðilegan grundvöll eins og hver annar til að fjalla um þær.“

Í raun má segja að Ólafur sé einn af fáum stjórnmálafræðingum sem hafa gefið álit sitt á tillögum stjórnlagaráðs. Lögfræðingar hafa – einhverra hluta vegna – alfarið stýrt umræðunni. Í nýlegum sjónvarpsþætti RÚV um tillögurnar voru til dæmis álitsgjafar útsendingarinnar þrír lögfræðingar og sagnfræðingur. „Mér hefur fundist skortur á því að fræðasamfélagið í stjórnmálafræði héldi fram sínum metnaði í fræðilegri greiningu á þessum tillögum sem og öðrum hugmyndum sem fram hafa komið. Fjarvera stjórnmálafræðinga er mér satt að segja óskiljanleg. Þó að lögfræðin sé ágæt, er hún dálítil ferköntuð, hvað þetta snertir. Hún afmarkar sérstaka þætti í stað þess að meta gangvirkið í heild.“

Ráð til forsetaframbjóðanda
Þrátt fyrir að blaðamenn Íslensku leiðarinnar séu ekki gjaldgengir forsetaframbjóðendur (eingöngu vegna stjórnarskrárákvæðis um 35 ára aldurstakmark í embættið) leikur þeim samt forvitni á að vita hvaða ráð Ólafur gæfi hugsanlegum eftirmanni sínum.

„Það geta allskonar einstaklingar haft áhuga á framboði til forsetakjörs og rætt það við fjölmiðla og almannatengla. En ef umtalsverður hluti fólksins í landinu er ekki reiðubúinn að bera það framboð uppi skipta þær vangaveltur engu máli. Hinn lýðræðislegi stuðningur er algjör forsenda. Þetta er það sem margir fræðimenn hafa, að mínu mati, ekki áttað sig á varðandi forsetaembættið. Gangvirkið í embættinu er ekki formið heldur hið merkilega lýðræðislega samband forseta og fólksins í landinu. Þetta sést mjög skýrt, ef menn greina forsetakjörin 1996, 1980 og 1968. Hinn lýðræðislegi vilji fólksins fylkir sér bakvið ákveðið fólk og ekki endilega þá sem sækjast hvað harðast eftir embættinu. Margir, bæði fjölmiðlamenn og aðrir, halda að vilji fólksins sé bara slagorð eða eitthvert skálkaskjól sem ég og aðrir búi til á blaðamannafundum. Staðreyndin er sú að hvorki ég né aðrir höfum á okkar valdi hvað fólkið í landinu kýs að gera þegar kemur að embættinu.“

Enginn ræður sínum sögulega dómi
Ef við gefum okkur að síðasta kjörtímabil Ólafs Ragnars Grímssonar sé brátt á enda er ekki úr vegi að spyrja hvernig hann vilji, sem forseti Íslands undanfarin sextán ár, að sín verði helst minnst. „Ég hef ekki velt vöngum yfir svarinu við slíkri spurningu,“ svarar hann að bragði. „Kannski vegna þess að eitt af því sem maður fær með hinu fræðilega veganesti, er að enginn ræður sínum sögulega dómi. Það getur líka verið hættuleg hugsun ef menn verða of uppteknir af sögulegum dómi og hætta á að slíkt blindi þeim sýn við ákvarðanatöku.“

Og þó – hann er ekki alveg búinn að jarða spurninguna: „Það sem mér hefur fundist mikilvægt í forsetaembættinu er það sem sett hefur svip sinn á samvinnu mína við háskólasamfélagið og stuðning við ýmis atvinnufyrirtæki; að eiga hlutdeild í því að unga kynslóðin á Íslandi teldi sinn heimvöll vera besta kostinn. Það er ekkert sjálfgefið, eins og ég hef fundið fyrir í samtölum við leiðtoga ýmissa ríkja, til dæmis í Mið- og Austur-Evrópu. Það er gríðarlegt vandamál fyrir þá að unga kynslóðin telur að sér sé betur borgið annars staðar. Þið eruð fyrsta kynslóðin í veraldarsögunni sem býr við þær aðstæður að hvert og eitt ykkar getur alfarið valið sér búsetu og starfsvettvang hvar sem er í heiminum. Þess vegna hefur það verið leiðarljós í minni viðleitni að reyna að styrkja stöðu nýrrar kynslóðar á Íslandi, að menn sæju kostina við að vera Íslendingur í hinni alþjóðlegu veröld.

Ég er sannfærður um að það er leitun að landi sem býr að eins ríkum og ólíkum auðlindum, samfélagi sem er jafn öruggt, góðri velferð og nýtur þess að geta átt sambönd við erlendar þjóðir um heim allan.“

Í þessari veröld, þar sem Íslendingar geta kosið hvaða samastað sem er, virkar Mosfellsbær sem býsna látlaus staður. Þar hafa Ólafur og Dorrit keypt sér einbýlishús. „Við hefðum ekki gert það, nema hugur okkar stefndi í aðrar áttir,“ segir Ólafur og þegar blaðið fór í prentun voru enn nokkrir dagar í að hann svaraði áskorun 31.755 Íslendinga um að halda áfram. Við kveðjum, án þess að vita hvort drukkið verði úr bollastelli Bessastaða í næsta viðtali Íslensku leiðarinnar.